Spurning
Hver er sú gáfa að tala tungum? Á sú gáfa erindi við nútímann? Hvað um að biðjast fyrir á tungum?
Svar
Fyrsta dæmi þess að talað væri tungum átti á sér stað á hvítasunnudag í Postulasögunni 2:3. Postularnir fóru út og deildu fagnaðarboðskapnum með mannfjöldanum, töluðu til hans á tungum hvers og eins: „Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs.“ Eins og á íslensku merkir gríska orðið „tunga“ líka „tungumál“. Þess vegna felur sú náðargáfa að tala tungum í sér að gera sig skiljanlegan á tungu sem maður skilur ekki til að þjóna einhverjum sem skilur þá tungu. Í 12ta til 14da kapítula Fyrra Korintubréfs, þar sem Páll ræðir þessa undursamlegu náðargáfu, segir hann: „Hvað mundi ég gagna yður, bræður, ef ég nú kæmi til yðar og talaði tungum, ef flytti ekki opinberun eða þekkingu eða spádóm eða kenningu?“ (1 Kor 14:6). Samkvæmt Páli postula og í samræmi við tungurnar sem lýst er í Postulasögunni, er það gagnlegt boðun fagnaðarerindisins að tala tungum, en það er gagnlegt þeim einum sem ekki skilja tunguna – nema þýtt sé eða útlagt.
Sá sem átti þá gáfu að geta túlkað tungutal (1Kor 12:30) gat skilið hvað þeir sem töluðu tungum voru að segja, jafnvel þó hann/hún kynni ekki málið sem talað var. Túlkendur miðluðu síðan boðskapnum til allra sem ekki skildu. „Biðji því sá, er talar tungum, um að gera útlagt“ (1Kor 14:13). Niðurstaða Páls um ótúlkað tungutal er mátug: „En á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að ég geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum“ (1Kor 14:19).
Á náðargáfa tungutals við nútímann? Í Fyrra Korintubréfi 13:8 segir Páll að spádómsgáfur muni líða undir lok, en tengir það við komu hins fullkomna: „En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum“ (1Kor 13:10). Sumir benda á muninn á spádómum og þekkingu sem líða muni undir lok með tungutali; það bendi til að sjálf tungan muni líða undir lok þegar „hið fullkomna“ kemur. Þetta er hugsanlegt, en kemur alls ekki skýrlega fram í textanum. Aðrir benda líka á texta eins og Jesaja 28,11 og Jóel 2:28-29 til sannindamerkis um að tungutal væri til marks um komandi dóm. Fyrra Korintubréf 14:22 telur spámannlegu gáfuna ekki vera til tákns fyrir hina vantrúuðu, „heldur þá sem trúa“. Kannski var tungutal álitið vera viðvörun til Gyðinga um aða Guð mundi dæma Ísrael fyrir að hafna Kristi sem Messíasi. Samkvæmt þeim skilningi er eyðing Jerúsalems af hendi Rómverja árið 70 til marks um að tungutal þjónaði ekki lengur upphaflegum tilgangi sínum. Þó þessi túlkun kunni að hafa eitthvað til síns máls, er ekki þar með sagt að tungutal hafi verið aflagt. Ritningin staðhæfir ekki að náðargáfa tungutals sé úr sögunni.
Ef hins vegar náðargáfa tungutals væri við lýði í kirkju samtímans, þá mundi henni vera beitt í samræmi við Ritninguna. Um yrði að ræða raunverulegt og skiljanlegt tungutak (1Kor 14:10). Tilgangurinn væri að miðla guðsorði til manneskju af öðru tungumáli (Post 2:6-129. það yrði í samræmi við fyrirmælin sem Guð gaf fyrir millgöngu Páls postula: „Séu einhverjir, sem tala tungum, mega þeir vera tveir eða í mesta lagi þrír, hver á eftir öðrum, og einn útlisti. En ef ekki er neinn til að útlista, þá þegi sá á safnaðarsamkomunni sem talar tungum, en tali við sjálfan sig og við Guð“ (1Kor 14:27-28). Það yrði líka með tilliti til 1Kor 14:33: „því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“
Vissulega getur Guð veitt manneskju náðargjöf tungutals, svo að hún geti skipst á orðum við manneskju sem talar aðra tungu. Heilagur andi er alvaldur þegar um það er að ræða að útbýta gjöfum andans (1Kor 12:11). Hugsið ykkur bara, hversu miklu afkastameiri kristniboðar gætu verið, ef þeir þyrftu ekki að ganga í málaskóla, heldur gætu umsvifalaust talað við fólkið á þjóðtungu þess. En Guð virðist ekki vera að sinna þessu. Tungutal virðist ekki eiga sér stað í samtímanum með sama hætti og tíðkast í Nýja testamentinu, enda þótt það gæti verið sérlega gagnlegt. Mikil meirihluti trúaðra, sem segjast iðka tungutal, gerir það ekki í samræmi við það sem fram kemur í Ritningunni. Þessar staðreyndir leiða til þeirrar niðurstöðu, að náðargáfa tungutals sé ekki lengur fyrir hendi eða sé að minnsta kosti sjaldgæf í ráðagerð Guðs fyrir kirkju samtímans.
Þeir sem trúa á náðargáfu tungutals sem „bænarmál“ til andlegrar uppbyggingar hafa fyrir sér 1Kor 14: 4 og 14:28: „Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn.“ Páll ver gervöllum 14 kapítula Fyrra Korintubréfs til að leggja áherslu á mikilægi þess, að tungutal sé túlkað (þýtt); sjá 14:5-12. Það sem Páll er í rauninni að segja í fjórða versi er þetta: „Ef þú talar tungum án túlkunar, ertu ekki að gera annað en byggja upp sjálfan þig, láta líta út fyrir að þú sért andlegri en aðrir. Ef þú talar tungum og færð orð þín túlkuð, ertu að byggja upp aðra.“ Nýja testamentið gefur hvergi bein fyrirmæli um að „biðjast fyrir með tungutali“. Nýja testamentið nefnir hvergi tilganginn né segir frá einstaklingi sem „biðjist fyrir með tungutali“. Ef bænargerð með tungutali stuðlaði að sjálfsuppbyggingu, væri það ekki óréttlátt gagnvart þeim sem ekki hafa tungutal á valdi sínu og geta fyrir bragðið ekki byggt upp sjálfa sig? 1Kor 12:29-30 gefur ljóslega til kynna, að ekki sé öllum gefið að tala tungum.
English
Hver er sú gáfa að tala tungum? Á sú gáfa erindi við nútímann? Hvað um að biðjast fyrir á tungum?