Spurning
Er líf eftir dauðann?
Svar
Er líf eftir dauðann? Biblían segir okkur: „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi. Hann rennur upp og fölnar eins og blóm, flýr burt eins og skuggi og hefur ekkert viðnám … Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?” (Jobsbók 14:1-2,14).
Eins og Job höfum við öll glímt við þessa spurningu. Hvað nákvæmlega gerist með okkur þegar við deyjum? Hættum við bara að vera til? Er lífið snúningshurð fyrir fólk sem fer og kemur aftur til jarðar til að vinna persónuleg afrek? Fara allir á sama stað eða eigum við ólíka áfangastaði? Eru himinn og helvíti raunverulega til, eða er bara um að ræða hugarástand?
Biblían segir okkur, að ekki sé einungis líf eftir dauðann, heldur eilíft líf svo dýrlegt að „Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann” (Fyrra Korintubréf 2:9). Jesús Kristur, holdtekja Guðs, kom til jarðarinnar í því skyni að færa okkur þessa gjöf eilífa lífsins. „Hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir” (Jesaja 53:5).
Jesús tók á sig refsinguna sem hvert og eitt okkar hefur unnið til og fórnaði lífi sínu. Þremur dögum síðar reyndist hann sigursæll gagnvart dauðanum með því að rísa upp úr gröf sinni, í holdi og anda. Hann var um kyrrt á jörðinni í fjörutíu daga, og þúsundir manna sáu hann, áður en hann steig upp til eilífra heimkynna sinna á himnum. Í Rómverjabréfinu 4:25 segir: „Hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.”
Upprisa Krists var vel vottfestur viðburður. Páll postuli manaði fólk til að efast um sannleiksgildi vitnanna, en enginn treystist til að vefengja sannleikann. Upprisan er hornsteinn kristinnar trúar: vegna þess að Kristur var reistur upp frá dauðum megum við trúa því, að einnig við verðum reist upp frá dauðum.
Páll vandaði um við suma hinna frumkristnu manna sem áttu erfitt með að trúa þessu: „En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp? Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn” (Fyrra Korintubréf 15:12-13).
Kristur var einungis hinn fyrsti af mikilli uppskeru þeirra sem reistir verða upp frá dauðum. Líkamlegur dauði kom fyrir atbeina eins manns, Adams, sem við rekjum öll ættir okkar til. En allir þeir, sem ættleiddir hafa verið af fjölskyldu Guðs fyrir trúna á Jesúm Krist, munu öðlast nýtt líf (Fyrra Korintubréf 15:20-22). Á sama hátt og Guð reisti upp líkama Jesú, þannig munu líkamar okkar verða reistir upp við endurkomu Jesú (Fyrra Korintubréf 6:14).
Enda þótt við verðum öll reist upp frá dauðum þegar þar að kemur, þá eiga ekki allir samleið til himna. Hvert og eitt okkar verður að gera upp hug sinn í þessu lífi, hvort hann eða hún stílar á eilífðina. Biblían segir, að okkur sé ætlað að deyja aðeins einu sinn, og eftir það komi dómurinn (Hebreabréfið 9:27). Þeir sem réttlættir hafa verið munu fara til eilífs lífs á himnum, en trúlausum verður vísað til eilífrar refsingar eða helvítis (Matteus 25:46).
Helvíti er ekki fremur en himnaríki hugarástand, heldur raunverulegur staður. Í þeim stað munu syndarar þola óendanlega og eilífa reiði Guðs. Þeir munu líða tilfinningalegar, andlegar og líkamlegar kvalir og með fullri meðvitund þjást af skömm, iðrun og fyrirlitningu.
Helvíti er lýst sem botnlausum pytti (Lúkas 8:31; Opinberunarbókin 9:1) og díki elds og brennisteins, þar sem fordæmdir verða þjakaðir dag og nótt um aldur og ævi (Opinberunarbókin 20:10). Í helvíti verður grátur og gnýstran tanna, sem gefur til kynna djúpa sorg og mikla reiði (Matteus 13:42). Það er staður „þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki” (Markús 9:48). Guð hefur enga ánægju af dauða syndaranna, en vill að þeir snúi af villu síns vegar, svo þeir fái lifað (Esekíel 31:11). En hann mun ekki þvinga okkur til undirgefni. Ef við kjósum að hafna honum, á hann ekki annars úrkosta en veita okkur það sem við viljum – að lifa fjarri honum.
Lífið á jörðinni er prófraun – undirbúningur þess sem koma skal. Fyrir þá trúuðu er það eilíft líf í nánu sambandi við Guð. Hvernig erum við þá gerð réttlát og fær um að þiggja þetta eilífa líf? Það er aðeins um eina leið að ræða – í trú og trausti á son Guðs, Jesúm Krist. Jesús sagði: „ Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja” (Jóhannes 11:25-26).
Ókeypis gjöf eilífs lífs stendur öllum til boða, en hún útheimtir að við neitum okkur um nokkrar veraldlegar nautnir og helgum okkur Guði. „Sá sem trúir á soninn hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum” (Jóhannes 3:36). Okkur verður ekki gefið tækifæri til að iðrast synda okkar eftir dauðann, vegna þess að þegar við stöndum augliti til auglitis við Guð eigum við ekki annars úrkosta en trúa á hann. Hann vill að við komum til hans núna í trú og kærleika. Ef við þiggjum dauða Jesú Krists sem borgun fyrir syndsamlega uppreisn okkar gegn Guði, er okkur ekki aðeins tryggt merkingarfullt líf á jörðinni, heldur líka eilíft líf í návist Krists.
Viljirðu þiggja Jesúm Krist sem lausnara þinn, þá er hér einföld bæn. Mundu að hvorki þessi bæn né nein önnur mun frelsa þig. Einungis traust á Kristi getur frelsað þig frá syndinni. Þessi bæn er einfaldlega leið til að tjá Guði trú þína á hann og þakka honum fyrir að afla þér hjálpræðis. „Guð, ég veit að ég hef syndgað gegn þér og verðskulda refsingu. En Jesús Kristur tók á sig hegninguna sem ég verðskulda, svo mér yrði fyrirgefið fyrir trúna á hann. Ég sný baki við syndinni og set traust mitt um hjálpræði á hann. Þakka þér undursamlega náð þína og fyrirgefningu – gjöf eilífs lífs! Amen!”
Hefurðu valið Krist eftir lestur þennan? Sé svo, þá vinsamlega ýttu á hnappinn hér að neðan „Ég hef tekið við Kristi í dag“
English
Er líf eftir dauðann?