Spurning
Hvað segir Biblían um risaeðlur? Eru risaeðlur í Biblíunni?
Svar
Spurningin um risaeðlur í Biblíunni er þáttur í víðtækari umræðu sem nú á sér stað meðal kristinna manna um aldur jarðar, rétta túlkun á Fyrstu Mósebók og hvernig túlka beri efnisleg verksummerki í umhverfi okkar. Þeir sem trúa á hærri aldur jarðarinnar hneigjast til að samsinna því, að Biblían minnist ekki á risaeðlur, vegna þess að samkvæmt viðmiði þeirra dóu risaeðlur út milljónum ára áður en fyrsti maðurinn ferðaðist um jörðina. Mennirnir sem sömdu Biblíuna gátu því ekki séð lifandi risaeðlur.
Þeir sem trúa á yngri aldur jarðar hneigjast til að samsinna því, að Biblían minnist á risaeðlur, þó hún noti aldrei orðið „risaeðla“. Í staðinn notar hún hebreska orðið tannijn. Tannijn er þýtt með ýmsu móti í Biblíunni okkar. Stundum er þýðingin „sæskrímsli“, stundum „snákur“. Oftast er þýðingin „dreki“. Tannijn virðist hafa verið einhverskonar risavaxið skriðdýr. Um þessar skepnur er getið nálega þrjátíu sinnum í Gamla testamentinu og þær koma fyrir jafnt á landi sem í legi.
Að viðbættum nálega þrjátíu umsögnum um þessi risavöxnu skriðdýr á víð og dreif í Gamla testamentinu lýsir Biblían nokkrum skepnum með þeim hætti, að ýmsir fræðimenn telja að höfundarnir kunni að hafa verið að lýsa risaeðlum. Nykurinn er sagður vera voldugastur af skepnum Guðs, risi sem jafnað er við sedrustré (Job 40:15-24). Ýmsir fræðimenn hafa reynt að sjá í nykrinum fíl eða flóðhest. Aðrir benda á fílar og flóðhesta hafi þvengmjóa sterti sem ekki verði líkt við sedrustré. Risaeðlur á borð við Armfætlu og Þórseðlubróður eru búnar risavöxnum hölum sem auðveldlega má jafna við sedrustré.
Nálega öll forn menningarskeið hafa skilið eftir sig myndverk af einhverjum risavöxnum skriðdýrum. Bergrúnir, smíðisgripir og jafnvel litlar leirstyttur, sem fundist hafa í Norður-Ameríku, líkjast nútímateikningum af risaeðlum. Klettarúnir í Suður-Ameríku sýna menn ríðandi skepnum sem líkjast risaeðlum, og svo furðulegt sem það má virðast, þá líkjast þær nashyrningseðlum, flugeðlum og grameðlum. Rómverskar mósaíkmyndir, leirmunir Maya-indjána og borgarveggir Babýlóníu bera vitni þvermenningarlegri og alþjóðlegri hrifningu af þessum skepnum. Ýkjulausar frásagnir eins og Il Milione eftir Marco Polo blandast órúlegum sögum af skepnum sem hömstruðu dýrgripi. Nútímafrásagnir af fornleifafundum vekja enn athygli, þó þeim sé oftlega tekið með tortryggni.
Að viðbættum umtalsverðum mannfræðilegum og sögulegum verksummerkjum um sambýli manna og risaeðla eru fyrir hendi önnur líkamleg ummerki eins og steingerð fótspor eftir menn og risaeðlur sem fundist hafa samtvinnuð sums staðar í Norður-Ameríku og vestanverðri Mið-Asíu.
Eru þá risaeðlur í Biblíunni? Um það ríkir ekki sátt. Allt er undir því komið, hvernig túlkuð eru sönnunargögnin sem fyrir hendi eru og hvaða augum menn líta veröldina. Við höllumst að kenningunni um unga jörð og föllumst á að menn og risaeðlur hafi lifað saman á jörðinni. Við trúum að risaeðlur hafi dáið út einhvern tíma eftir Nóaflóð bæði vegna mikilla umhverfisbreytinga og vegna þess að þær voru miskunnarlaust veiddar af manninum.
English
Hvað segir Biblían um risaeðlur? Eru risaeðlur í Biblíunni?