Spurning
Hvað segir Biblían um fjárhættuspil? Er fjárhættuspil syndsamlegt?
Svar
Fjárhættuspil er sagt fela í sér að „hætta peningum í þeirri viðleitni að margfalda peningana á einhverju sem veitir tvísýna vinningsmöguleika“. Biblían fordæmir ekki sérstaklega fjárhættuspil, veðmál eða happdrætti. En Biblían hvetur okkur samt til að varast ást á peningum (1Tím 6:10; Heb 13:5). Ritningin hvetur okkur líka til að forðast tilraunir til „skjótra auðæfa“ (Okv 13:11; 23,15; Préd 5:10). Fjárhættuspil snýst vissulega um ást á auðæfum og freistar fólks óneitanlega með fyrirheitum um skjótan og auðveldan fjárgróða.
Hvað er athugavert við fjárhættuspil? Fjárhættuspil er erfitt viðureignar vegna þess, að sé það stundað í hófi og bara endrum og eins, þá er það sóun á peningum, en ekki endilega „illt“. Fólk sóar peningum í allt mögulegt. Fjárhættuspil er hvorki meiri né minni sóun á peningum en að fara í bíó (í mörgum tilfellum), snæða óþarflega dýra máltíð eða kaupa gagnslausan hlut. Samt réttlætir það ekki fjárhættuspil að peningum skuli vera sóað í aðra hluti. Peningum á ekki að sóa. Umframfé á að spara til seinni nota eða guðsþakkagjafa – en ekki sóa í fjárhættuspil.
Fjárhættuspil í Biblíunni: Þó Biblían orði hvergi beinlínis fjárhættuspil, nefnir hún leiki sem varða „heppni“ og „hendingu“. Í Þriðju Mósebók er til dæmis varpað hlutkesti milli tveggja geithafra sem fórna skal í syndafórn og brennifórn. Jósúa skiptir með hlutkesti landi sem hann úthlutar til kynkvísla Ísraelsmanna í Kanaanlandi. Nehemía varpar hlutkesti um, hverjir búa skuli innan múra Jerúsalems og hverjir ekki. Postularnir varpa hlutkesti um, hver taka skuli við hlutverki Júdasar. Í Orðskviðunum 16:33 segir: „Í skikkjufellingum eru teningarnir hristir, en Drottinn ræður, hvað upp kemur.“ Hvergi í Biblíunni eru veðmál eða „hendingar“ notaðar til skemmtunar og kynntar sem boðleg ástundun Guðs barna.
Spilavíti og happdrætti: Spilavíti beita alls kyns bellibrögðum til að tæla fjárhættuspilara til að hætta eins miklu fé og kostur er. Þau bjóða einatt upp á ódýrt eða jafnvel ókeypis áfengi, sem örvar ölvun og dregur þannig úr getunni til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Allt í spilavítum er gert fullkomlega klárt til að ná inn miklum peningafúlgum og láta ekkert á móti annað en skammvinna og innantóma ánægju. Happdrætti reyna að kynn sig sem leið til að kosta menntun og/eða félagslega þjónustu. Hins vegar sýna kannanir fram á, að þeir sem taka þátt í happdrættum eru að jafnaði þeir sem síst hafa ráð á að eyða fjármunum í happdrættismiða. Freistingin að „auðgast snarlega“ er of sterk fyrir þá sem eru örþrifa. Vinningsmöguleikarnir eru óendanlega rýrir, sem leiðir til þess að fjöldi fólks verður örbjarga.
Hvers vegna happdrættisvinningar eru ekki Guði að skapi: Margir segjast taka þátt í happdrætti eða fjárhættuspili til að eignast fé sem ganga eigi til kirkjulegs starfs eða einhvers annars góðs málefnis. Þó sá tilgangur kunni að vera lofsverður, þá er sannleikurinn sá að sárafáir verja happdrættis- eða spilavinningum til guðlegra þarfa. Rannsóknir sýna að mikill meirihluti vinningshafa eru í jafnvel enn verri kröggum en áður nokkrum árum eftir að þeir höfðu hreppt stóra vinninginn. Fáir eða engir þeirra styðja góð málefni. Auk þess þarf Guð ekki fjármuni okkar til að kosta erindi hans við veröldina. Í Orðskviðunum 13:11 segir: „Skjótfenginn auður minnkar, en sá sem safnar smátt og smátt verður ríkur.“ Guð er alvaldur og mun sjá fyrir þörfum kirkju sinnar með heiðarlegum hætti. Væri Guði sýnd virðing með því að færa honum eiturlyfja- eða bankaránspeninga? Guð þarfnast ekki heldur fjármuna sem „stolið“ er af fátæklingum með freistni auðlegðar.
Í fyrra Tímóteusarbréfi 6:10 segir: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ Í Hebreabréfi 13:5 segir: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig“.“ Í Matteusarguðspjalli 6:24 segir: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og Mammón.“
English
Hvað segir Biblían um fjárhættuspil? Er fjárhættuspil syndsamlegt?